Menntaspjall um náttúrufræðimenntun.

Sunnudagsmorguninn 25. janúar  kl. 11:00 var menntaspjall um náttúrufræðimenntun.  Þó nokkrir létu sjá sig á Twitter til að tjá sig um málefnið og tóku þátt í afskaplega fjörugu spjalli.

Menntaspjall á Twitter er eiginlega tvennt, annarsvegar umræðumerkið (myllumerki, hashtag) #menntaspjall sem skólafólk notar alla vikuna þegar það tjáir sig um skólamál á íslensku á Twitter. Hinsvegar er um skipulagða viðburði að ræða sem eiga sér stað annan hvern sunnudagsmorgun þar sem rætt er um tiltekin málefni. Skipuleggjendur eru þeir Ingvi Hrannar Ómarsson og Tryggvi Thayer, þeir fá svo gestatjórnanda til sín sem hefur innsýn í málefnið.

Þátttakendur í spjallinu

Stjórnendur að þessu sinni voru þau Ester Ýr Jónsdóttir og Birgir U. Ásgeirsson.

Spurt verður:
1. Hver ætti að vera tilgangur og markmið náttúrufræðimenntunar á Íslandi í dag?
2. Hvernig ætti að haga kennslu í nátttúrufræði og raungreinum til að mæta þeim markmiðum?
3. Hverjir eru styrkleikar náttúrufræði-/raunvísindakennslu núna?
4. Hverjar eru helstu áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í náttúrufræðikennslu?
5. Hvað getum við sem kennarar gert til að efla náttúrufræðimenntun?
6. Hvert er mikilvægi símenntunar náttúrufræði/raunvísinda-kennara og hvernig viljið þið að símenntun sé háttað?

Helstu framlög  má lesa í glugga hér að neðan í samantekt Ingva Hrannars:

Halda áfram að lesa

Málþing um náttúrufræðimenntun vor 2015

Málþing um náttúrufræðimenntun verður haldið 17.-18. apríl 2015. Dagskráin verður með fjölbreyttu sniði, erindi, smiðjur og pallborð. Kallað verður eftir framlögum í byrjun janúar 2015.

Að þinginu standa:

Rannsóknarstofa um náttúrufræðimenntun við Menntavísindasvið
Félag leikskólakennara
Samlíf félag líffræðikennara
Samtök áhugafólks um skólaþróun.

frekari upplýsingar: birgira@hi.is

 

Er sjávarútvegur gamaldags og illa lyktandi?

Sjávarklassinn vinnur að verkefni sem miðar að því að efla meðvitund og vekja áhuga á sjávarútvegi hjá nemendum í 10. bekk í grunnskóla.

Skólar geta haft samband við Sjávarklasann og óskað eftir kynningu en hún er skólum að kostnaðarlausu. Af vef Sjávarklasans:

Kynningin samanstendur af stuttu ágripi af sögu íslensks sjávarútvegs, sérstöðu Íslands, helstu fiskategundir og framleiðsluferlinu, en í því felst svo miklu meira en flestir gera sér grein fyrir. Sagt er frá þeim hátækniiðnaði sem sjávarútvegurinn er í dag og hinar ýmsu starfstéttir sem tengjast honum á mismunandi hátt. Einnig er bent á bæði beinar og óbeinar námsleiðir tengdar greininni og krökkunum sýnd taska sem er stútfull af hinum ýmsu aukaafurðum úr fiskinum sem fáir vita að eru framleiddar á Íslandi. Markmiðið er því að gera þeim grein fyrir hversu víðfeðm áhrif sjávarútvegurinn hefur á okkar samfélag og hversu flottur iðnaður hann er.

Sjá nánar um verkefnið hér.

Útikennsluapp

Nú þegar haustar og skólar byrja aftur má minna á verkfæri og verkefni sem nýst geta á fögrum hautdögum til útiveru. Í vor var opnuð vefsíðan Útikennsluapp frá Náttúruskóla Reykjavíkur. Á vefnum segja aðstandendur: „Gönguleiðirnar sex og verkefnin í útikennsluappinu byggja á handbókinni Ævintýri á gönguför sem Bragi Bergsson vann fyrir Skóla- og frístundasvið árið 2011. Verkefnisstjórar handbókarinnar voru Fríða Bjarney Jónsdóttir og Kolbrún Vigfúsdóttir, báðar á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur.“


Halda áfram að lesa

Námskeið: Ný vísindi með sjálfbærni að leiðarljósi

NaNO – ný vísindi með sjálfbærni að leiðarljósi

Markmið þessa námskeiðs er að styðja við kennara og styrkja þá í þverfaglegum vinnubrögðum og umfjöllun um viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að flokkast undir náttúruvísindi, sjálfbærni og tækni 21. aldar. Þau eru í eðli sínu þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Mörg viðfangsefnanna teygja sig einnig yfir í samfélagsgreinar og samspil vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Áhersla verður á grunnþætti menntunar, sérstaklega læsi og sjálfbærni í tengslum við loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á náttúru, lífríki og efnahag.

Dæmi um viðfangsefni: nanótækni, líftækni, hafið, loftslagsverkfræði, vistheimt, sorp í framtíðinni, orkuvinnsla framtíðar, sýndartilraunir, læsi, náttúrulæsi og upplýsingatækni. Þátttakendur velja í sameiningu viðfangsefni vetrarins.

Afurðir: Á námskeiðinu verður ýmist unnið að námsefni þannig að það nýtist ólíkum námsgreinum og stuðli að samþættingu þeirra eða verkefnum sem tengjast vinnu við gerð nýrra skólanámskráa.

Markhópur: Kennarar á mið- og unglingastigi grunnskóla, aðrir kennarar og skólastjórnendur velkomnir.

Tímabil og staðsetning: Námskeiðið hefst 12. september. Staðlotur fara fram einu sinni í mánuði (að desember undanskildum) frá september 2014 – apríl 2015 á mismunandi vikudögum í seinni part dags. Dagsetningar verða ákveðnar í samráði við þátttakendur.

Kennt verður ýmist í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu eða fyrirtækjum og stofnunum.

Á milli staðlota gefast tækifæri til að eiga samskipti á netmiðlum, möguleiki er að sækja námskeiðið í fjarnámi.

Halda áfram að lesa

Umhverfisvefur Háskóla Íslands og Grænir dagar

Háskóli Íslands hefur sett sér markmið í sjálfbærni- og umhverfismálum sem taka til átta efnisflokka sem spanna allt frá námi og rannsóknum til hins daglega lífs háskólaborgara. Nýr umhverfisvefur hefur verið opnaður á heimasíður Háskóla Íslands undir heitinu; Sjálfbærni og umhverfi. Þar má meðal annars finna umhverfis- og sjálfbærnistefnu Háskóla Íslands, hugmyndir um hvað hver og einn getur gert til þess að stuðla að sjálfbæru samfélagi og yfirlit yfir viðburði sem tengjast umhverfismálum. Halda áfram að lesa

Opin erindi um vistheimt og sorpmál


Allir kennarar eru velkomnir á  tvo fyrirlestra með umræðum sem standa frá 13:30 til 16:30 í stofu K 206 í byggingu Menntavísindasviðs HÍ við Stakkahlíð.

 

 

Mánudaginn 24. febrúar 2014 kl. 13:30-16:30.
Vistheimt – Ása Aradóttir frá Landbúnaðarháskóla Íslands flytur erindi um vistheimt á Íslandi.

Þriðjudaginn 25. febrúar 2014 kl. 13:30-16:30.
Rusl í framtíðinni – Sigurbjörg Sæmundsdóttir frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti flytur erindi um landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024 og Erla Helgadóttir frá Sorpu flytur erindi um úrgangsmál framtíðar. Halda áfram að lesa