Vel heppnaðar menntabúðir voru haldnar í dag þar sem Haukur Arason bauð uppá hraðferð í gegnum alveg urmul af verklegum æfingum tengdum rafmagni og seglum. Tuttugu kennarar mættu, lærðu, rifjuðu upp og deildu eigin reynslu.
Eins og oft áður bárust kaup á aðföngum í tal og þær uppástungur sem bárust voru um Miðbæjarradíó sem selur ýmiskonar rafmagnsvörur og nýjustu meðmæli segja að gott sé að panta áhöld á Aliexpress. Þessir tenglar eru líka komnir í safnið af söluaðilum búnaðar sem við höfum safnað saman.
Skoðaðar voru tilraunir og sem og dót sem hentar eldri og yngri nemendum, YouTube-myndbönd og sýndartilraunir á Phet, en mikið úrval er til af þeim um rafmagn og segulmagn.
Í lokin var kíkt á stafrænan mæli frá Pasco, sem A4 selur og er á vel viðráðanlegu verði, en hugbúnaður fyrir snjalltæki sem fylgir þeim er fríkeypis og nálagst má á vefsíðu þeirra, tengla yfir í Play Store og App Store. Einnig var bent á sambærileg tæki frá Vernier, en ekki var vitað hver er umboðsaðili með því vörumerki.
Bestu þakkir kennarar fyrir komuna og Haukur fyrir þitt framlag.