Norrænt verkefnasafn í náttúrufræði fyrir leikskóla

Á síðu Náttúrutorgs er að finna ýmis verkefnasöfn, í flestum tilfellum er um að ræða efni sem starfandi kennarar hafa sent okkur til að aðrir kennarar geti nýtt sér.

Nú hefur bæst við nýtt efni sem Menntavísindastofnun gefur út hér á landi, Norrænt verkefnasafn í náttúrufræði fyrir leikskóla. Í inngangi segir:

Markmiðið með þessum verkefnum er að hvetja til og styðja við náttúrufræðinám í leikskólum. Efnið er byggt á sameiginlegu norrænu þróunarverkefni um náttúrufræðimenntun leikskólakennara sem hófst árið 2011 (Læring av naturfagbegreper hos barnehagebarn: Nordisk studiemodul for førskolelærerutdanningen (NATGREP)).

Verkefnið var fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni (Nordplus) og vinnuveitendum þátttakenda og tilgangurinn var að efla þverfaglegt vísindasamstarf um náttúrufræði. Einnig var stefnt að því að auka gæði leikskólastarfs og styrkja menntun leikskólakennara á Norðurlöndum.

Bæði háskólakennarar og starfsfólk ýmissa leikskóla hafa verið fulltrúar Dana, Finna, Íslendinga, Norðmanna og Svía í samstarfinu um námsefnið. Leikskólakennaranemar tóku einnig þátt í því að prófa það. Á grundvelli samræðna um rannsóknir og prófanir á verkefnunum sem gerðar höfðu verið í hinum ýmsu leikskólum varð til fræðilegur grunnur að því hvernig væri best að styðja náttúrufræðistarf í leikskólum (sjá nánar í Sortland et al., 2017). Á grunni þessa efnis unnu leikskólakennaranemar í vettvangsnámi sínu að ýmiss konar náttúrufræðiverkefnum. Þau verkefni voru síðan greind og rökrædd í samstarfshópnum.