Verkefnasafn

Eitt af því sem kennarar dunda mikið við er að búa til verkefni. Þegar ég byrjaði að kenna gátu kennarar farið í kennslumiðstöðvar og ljósritað verkefni sem þangað hafði verið safnað í banka. Með upplýsingatækni opnaðist fljótleg, þægileg og ódýr leið til að dreifa gögnum, upplýsingum og skrám .Það hefði mátt halda að það yrði stundað í stórum stíl að kennarar deildu milli sín glósum, verkefnum,  prófum, glærum, vinnuseðlum og öðru sem þeir framleiða. Það hefur lítið gerst. Innan hvers skóla má samt ætla að einhver vísir að slíku sé til.

Dæmi eru um að kennarar deili slíku á milli sín en í litlum og óskipulögðum mæli. Með því að gefa og taka út úr gagnabanka má nýta betur krafta kennara sem margir hverjir eru að framleiða nákvæmlega sömu kennslugögnin hver í sínu horni.  Ætla má að með slíku dreifist  reynsla, þekking og tími kennara nýtist betur og gefi svigrúm til að spreyta sig á fjölbreyttari náttúrufræðikennslu.

Í umræðu meðal kennara um það að deila á milli sín vinnu koma alltaf upp mörg rök bæði á móti því og með því að deila verkefnum.

Ég get ekkert notað verkefni frá öðrum.

Ég er þessu bara svo gjörsamlega ósammála, flest okkar getum eflaust rifjað upp að vera nýr kennari sem er að drukkna í öllu því sem læra þarf og gera. Þá er það himnasending að fá tilbúið verkefni, tilbúið próf, vinnuseðil og verkefnalýsingu. Eftir því sem þekking og reynsla eykst, eykst svo sjálfstraustið og tíminn til að búa til sitt eigið, já eða að aðlaga efni annara að sínum takti og yfirferð. Í því getur líka falist tímasparnaður og vinnuhagræðing.

Það sem ég bý til er ekki nógu gott, bara eitthvað sem ég henti upp.

Gott og vel, en með því að deila því býrð þú til tækifæri til að í samstarfi geti það orðið eitthvað stórkostlegt. En í flestum tilfellum er verkefnið alveg nógu gott, það þarf ekki að vera óaðfinnanlegt.

Sumir vilja ekki gefa vinnuna sína

Ég veit ekki hver er lagaleg og kjarasamningaleg staða á því hver eigi það sem kennari framleiðir í sínum vinnutíma en þetta sjónarmið verður að virða en á meðan að hafa bak við eyrað að það er synd að góð vinna fái ekki að nýtast fleirum

Vísir að gagnabanka:

Eitt af markmiðum Náttúrutorgs hefur verið að halda utanum og stýra gagnabanka og nýta til þess verkfæri sem fást ókeypis á vef til að byrja með. Vísir að svona gagnabanka hefur verið á N-Torg wikivefnum en andlit hans hefur nú verið flutt hingað yfir á Náttúrutorgsvefinn (sjá hér að ofan Gagnabanki)  í kjölfar umræðu um slíkt í hópi náttúrufræðikennara.

Reynt verður að flokka efnið og merkja eins og hægt er en enginn dómur lagður á gæði og innihald. Slíkt verður að liggja milli hluta að sinni þar sem það útheimtir töluvert flóknari vefsmíðar en eru á valdi þessa verkefnis hér.

Það er von mín að þessi grænjaxl verði einhvern daginn að fullþroskuðum ávöxt en til þess þarf meira efni að berast. Hvort slíkt verður um aldur og æfi vistað hér veit enginn en ef þessir tilburðir geta orðið einhverjum að gagni er til mikils unnið. kv. Svava