Háskóli Íslands hefur sett sér markmið í sjálfbærni- og umhverfismálum sem taka til átta efnisflokka sem spanna allt frá námi og rannsóknum til hins daglega lífs háskólaborgara. Nýr umhverfisvefur hefur verið opnaður á heimasíður Háskóla Íslands undir heitinu; Sjálfbærni og umhverfi. Þar má meðal annars finna umhverfis- og sjálfbærnistefnu Háskóla Íslands, hugmyndir um hvað hver og einn getur gert til þess að stuðla að sjálfbæru samfélagi og yfirlit yfir viðburði sem tengjast umhverfismálum. Á vefnum er hægt að koma með athugasemdir, ábendingar og góðar hugmyndir að verkefnum. Þessi vefur er góður fyrir alla sem hafa áhuga á að fræðast og vita meira um hvað felst í hugtakinu sjálfbærni. Verkefnið má einnig finna á Facebook; Sjálfbærni og umhverfismál í Háskóla Íslands.
Grænir dagar er árlegur viðburður sem gengur út á það að vekja athygli á málefnum er tengjast sjálfbærri hugsun og umhverfisvernd. Nemendur í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands sjá um verkefnið Green Days – Iceland og finna má upplýsingar á Facebook síðu dagana. Þema ársins 2014 er Sjálfbærni í borgum og grænir dagar eru 1.-5. apríl. Ýmsir viðburðir verða á dagskrá, þar sem bæði nemendur og allir aðrir áhugasamir fá tækifæri til þess að fræðast um sjálfbærni. M.a. verða haldnir fyrirlestrar, sýndar kvikmyndir og alls kyns aðrar uppákomur.
/Hafdís Ragnarsdóttir