NaNO – ný vísindi með sjálfbærni að leiðarljósi
Markmið þessa námskeiðs er að styðja við kennara og styrkja þá í þverfaglegum vinnubrögðum og umfjöllun um viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að flokkast undir náttúruvísindi, sjálfbærni og tækni 21. aldar. Þau eru í eðli sínu þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Mörg viðfangsefnanna teygja sig einnig yfir í samfélagsgreinar og samspil vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Áhersla verður á grunnþætti menntunar, sérstaklega læsi og sjálfbærni í tengslum við loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á náttúru, lífríki og efnahag.
Dæmi um viðfangsefni: nanótækni, líftækni, hafið, loftslagsverkfræði, vistheimt, sorp í framtíðinni, orkuvinnsla framtíðar, sýndartilraunir, læsi, náttúrulæsi og upplýsingatækni. Þátttakendur velja í sameiningu viðfangsefni vetrarins.
Afurðir: Á námskeiðinu verður ýmist unnið að námsefni þannig að það nýtist ólíkum námsgreinum og stuðli að samþættingu þeirra eða verkefnum sem tengjast vinnu við gerð nýrra skólanámskráa.
Markhópur: Kennarar á mið- og unglingastigi grunnskóla, aðrir kennarar og skólastjórnendur velkomnir.
Tímabil og staðsetning: Námskeiðið hefst 12. september. Staðlotur fara fram einu sinni í mánuði (að desember undanskildum) frá september 2014 – apríl 2015 á mismunandi vikudögum í seinni part dags. Dagsetningar verða ákveðnar í samráði við þátttakendur.
Kennt verður ýmist í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu eða fyrirtækjum og stofnunum.
Á milli staðlota gefast tækifæri til að eiga samskipti á netmiðlum, möguleiki er að sækja námskeiðið í fjarnámi.