Málþing um náttúrufræðimenntun var haldið 17. – 18. apríl 2015. Slík málþing hafa verið haldin að minnsta kosti þrisvar áður. Að þessu sinni var það haldið að frumkvæði Rannsóknarstofu um náttúrufræðimenntun (RAUN) í góðu samstarfi við Samlíf- Samtök líffræðikennara og Félag leikskólakennara. Birgir U. Ásgeirsson fór fyrir undirbúningshópnum og á stóran hlut í framkvæmd málþingsins. Undirbúningshópurinn er afskaplega ánægður með hvernig til tókst. Þátttakan var góð, yfir 120 kennarar af öllum skólastigum, námsefnishöfundar og gestir frá ýmsum stofnunum sem tengjast náttúruvísindum sóttu þingið. Erindi voru fjölbreytt, inngangserindi áhugaverð og dagskrárliður um vísindamiðlun fyrir börn og almenning sérlega ánægjulegur.
Við kunnum Verzlunarskólanum bestu þakkir fyrir móttökurnar, Kennarasambandi Íslands og Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir stuðninginn, Samtökum áhugafólks um skólarþóun fyrir aðstoðina og síðast en ekki síst öllum þeim fjölmörgu sem lögðu fram krafta sína að segja frá verkefnum, hugmyndum og rannsóknum.