Nú þegar haustar og skólar byrja aftur má minna á verkfæri og verkefni sem nýst geta á fögrum hautdögum til útiveru. Í vor var opnuð vefsíðan Útikennsluapp frá Náttúruskóla Reykjavíkur. Á vefnum segja aðstandendur: „Gönguleiðirnar sex og verkefnin í útikennsluappinu byggja á handbókinni Ævintýri á gönguför sem Bragi Bergsson vann fyrir Skóla- og frístundasvið árið 2011. Verkefnisstjórar handbókarinnar voru Fríða Bjarney Jónsdóttir og Kolbrún Vigfúsdóttir, báðar á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur.“
Útikennsluapp er verkefni Náttúruskóla Reykjavíkur. Höfundur þess er Helena Óladóttir, verkefnisstjóri Náttúruskólans en forritið er unnið af Kjartan Akil Jónssyni hjá aGameCompany. Útikennsluapp er styrkt af Þróunarsjóði Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
Hægt er að skoða appið í hefðbundnum tölvum en einnig er það fáanlegt bæði í Google Play fyrir android tæki og í iTunes fyrir bæði ipad og iphone. Útikennsluappið notar staðsetningabúnað símans eða spjaldtölvunar til að leiða notandann á gönguferð og gefur upplýsingar um nágrenni og lífríki á nokkrum stöðum á leiðinni. Upplýsingarnar eru gefnar í formi textabúta og ljósmynda.
Hægt er að skoða leiðarnar án þess að vera á á staðnum. Greinilegt er að höfundar ætla sér að bæta við gönguleiðum en sem komið er eru sex leiðir í miðborg Reykjavíkur tilbúnar. Gönguleiðirnar sex beina athygli að fjölbreyttum atriðum í umhverfinu allt frá arkitektúr til fugla og dýralífs. Bæði skólar og fjölskyldur geta notað appið til að fræðast um miðborgina og ætti að vera hvatning til að drífa sig út að skoða það sem fyrir augu ber.