Í nýrri menntastefnu sem birtist í Aðalnámskrá grunnskóla [1] eru sex grunnþættir menntunar hafðir að leiðarljósi; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þeir eiga vera sýnilegir í öllu skólastarfi og inntaki námgreina og námssviða. Þessum grunnþáttum er ætlað að ná meiri heildarsýn á skólastarfið en þeir eru í raun háðir hver öðrum. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun er að við skilum náttúru og umhverfi til afkomenda okkar í ekki lakara ástandi en við tókum við því. Úrlausnarefnið er að vinna að því að allt fólk búi við ásættanleg lífsgæði en jafnframt verði náttúran virt og auðlindum hennar haldið við svo að komandi kynslóðir eigi þess kost að búa við mannsæmandi aðstæður líkt og við [2]. Sjálbær þróun snýst því um jafnrétti kynslóða en ekki síður um jafrétti heimshluta, með jöfnuð og útrýmingu fátæktar sem forgangsverkefni.
Neðst á þessari síðu má finna fjóra mats- og greiningarlista. Hugsunin með þeim er að auðvelda skólum að kortleggja stöðu sína og verkefni með sjálfbæra þróun og menntun til sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Hver skóli getur notað listana að vild og endurskoðað þá, aðlagað og breytt eftir eigin þörfum. Þeir verða vonandi kveikja að umræðu um hvernig menntun til sjálfbærrar þróunar geti stuðlað að samábyrgu samfélagi þar sem virðing er borin fyrir öllu lífi og umhverfi í nútíð og framtíð og rétti komandi kynslóða til lífsafkomu og lífsgæða.
Í sjálfbærnimenntun fellst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver einstaklingur er þroskaður sem virkur borgari, meðvitaður um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart hnattrænum áhrifum og jafnræði allra jarðarbúa; náttúru og umhverfi; lýðræði, mannréttindum og réttlæti; jafnrétti og fjölmenningu; velferð og heilbrigði; og efnahagsþróun og framtíðarsýn. Í sjálfbærnimenntun felst einnig að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Kennsla og starfshættir innan skólans skulu fléttast saman við það viðhorf að markmið menntunar sé geta til aðgerða (bls. 20 -21).
Þegar grannt er skoðað þá felur grunnþátturinn sjálfbærni í sér aðra grunnþætti menntunar.
Smellið á myndirnar til að sækja listana sem Microsoft word skjöl.
[1] Mennta- og menningarmálaráðuneyti. 2013. Aðalnámskrá grunnskóla- almennur hluti 2011-greinasvið 2013.
[2] Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Námsgagnastofnun. 2013. Sjálfbærni- Grunnþáttur menntunar á öllum skólastigum.