SCIENTIX, raungreina- og tæknimenntun

Scientix er verkefni á vegum evrópska skólanetsins og er fjármagnað af sjöundu rammaáætlun Evrópubandalagsins á sviði rannsókna og þróunar.

Scientix verkefninu er ætlað að skapa samstarfsvettvang um raungreina- og tæknimenntun í Evrópu meðal kennara, vísindamanna og stefnumótandi aðila á sviði menntunar.

Með það að markmiði að kynna og hagnýta afurðir verkefna sem styrkt eru af opinberum sjóðum var á fyrsta tímabili Scientix, 2009-2012,  smíðuð netgátt þar sem safnað var saman kennsluefni og kynningum á verkefnum á sviði raungreina- og tæknimenntunar í Evrópu, auk þess sem haldnar voru nokkrar vinnustofur og fjölmenn ráðstefna í lok verkefnisins í maí 2012.

Markmið annars tímabils Scientix, 2013-2015 er að gera efni netgáttarinnar aðgengilegt sem flestum aðilum sem koma að raungreina- og tæknikennslu í Evrópu. Með milligöngu tengiliða Scientix í hverju landi verður leitast við að kynna kennurum nýjungar á sviði raungreina- og tæknikennslu til að efla kennslu og ýta undir fjölbreytilegar kennsluaðferðir á þessum sviðum á grunn- og framhaldsskólastigi.

Scientix samfélagið býður sérstaklega velkomna kennara raungreina- og tæknigreina, sem og aðra aðila sem láta sig menntun þessara greina varða. Kennarar geta á netgátt Scientix, www.scientix.eu,  fundið efni sem nýtist þeim beint sem kennsluefni eða veitir þeim innblástur í undirbúningi kennslu. Netgáttin mun bjóða upp á leit að samstarfsaðilum fyrir styrkumsóknir eða í verkefnum sem þegar hafa hlotið styrki. Vinnustofur, símenntunarnámskeið og ráðstefnur, hvort sem um er að ræða í net-eða raunheimum, verða auglýstar á netgáttinni. Síðast en ekki síst gefst aðilum að Scientix samfélaginu kostur á að sækja ráðstefnu í Brussel daga 24.-26. október 2014, þar sem boðið verður upp á vinnustofur, fjölmörg erindi og margvíslegar kynningar á sviði raungreina- og tæknimenntunar.

Tengiliðir Scientix á Íslandi eru: Fjalar Freyr Einarsson, Varmárskóla, fjalar@varmarskoli.is, Guðjón Andri Gylfason, Menntaskólanum á Akureyri, andri@ma.is og Jóhanna Arnórsdóttir, Menntaskólanum í Reykjavík, johannaa@mr.is.   Hlutverk okkar tengiliðanna er að miðla upplýsingum um Scientix verkefnið á landsvísu, til þeirra sem gætu hagnýtt sér og tekið þátt í Scientix samfélaginu. Skólum, faggreinafélögum, námsbrautum kennaranema og öðrum þeim sem koma að raungreina- og tæknikennslu á Íslandi býðst kynning á Scientix verkefninu eftir samkomulagi við ofangreinda tengiliði. Rétt er að nefna að verkefnið styrkir ferðir tengiliða innanlands til að kynna verkefnið á landsbyggðinni. Kennarar raungreina- og tæknigreina eru hvattir til að skoða og skrá sig á netgátt Scientix, www.scientix.eu, og leita til okkar tengiliðanna ef spurningar vakna eða ef áhugi er á að fá okkur til að kynna Scientix verkefnið.

Jóhanna Arnórsdóttir

Skildu eftir svar