NaNO – ný vísindi með sjálfbærni að leiðarljósi


Endurmenntunarnámskeið fyrir starfandi grunnskólakennara

og -nema í framhaldsnámi

Sorp í framtíðinni – Hafið – Líftækni – Nanótækni – Læsi, umhverfis- og náttúrulæsi – Orkuvinnsla framtíðar

Námskeiðslýsing

Markmið þessa námskeiðs er að styðja við kennara og styrkja þá í þverfaglegum vinnubrögðum og umfjöllun um viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að flokkast undir náttúruvísindi, sjálfbærni og tækni 21. aldar. Þau eru í eðli sínu þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Mörg viðfangsefnanna teygja sig einnig yfir í samfélagsgreinar og samspil vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Áhersla verður á grunnþætti menntunar, sérstaklega læsi og sjálfbærni í tengslum við loftslagsbreytingar, áhrif þeirra á náttúru, lífríki og efnahag.

Rædd verða valin þverfagleg viðfangsefni úr vísindastarfi á Íslandi og í umheiminum. Námskeiðið byggist á lestri greina í fag- og vísindatímaritum um nýjungar í náttúruvísindum, kynningum fluttum af vísindamönnum og samnemendum, og vinnu verkefna. Einnig verða heimsóttir staðir þar sem kynnt verða verkefni á Íslandi, bæði rafrænt og í raun.

Nemendur sem taka námskeiðið til eininga velja lokaverkefni, bæði form og inntak, í samráði við umsjónarkennara.

Námsefni verður valið með hliðsjón af því að þátttakendur kynnist nýjungum og vísindum á bak við nýjustu rannsóknir.

Viðfangsefni tengjast námi og kennslu í grunn- og framhaldsskólum og eiga að þjálfa kennara í að taka við spurningum frá nemendum um nýjustu tækni og vísindi. Auk þess verða rædd álita- og ágreiningsmál í tengslum við kennslu í náttúrufræði.

Hæfniviðmið

Að nemandi:

  • þekki valin fræðileg viðfangsefni og álitamál sem snerta náttúruvísindi bæði á Íslandi og í umheiminum
  • hafi þekkingu á siðfræði vísinda
  • geti nýtt þekkingu sína og skilning í faglegri vinnu
  • geti tekið sjálfstæðar, faglegar ákvarðarnir og rökstutt þær
  • geti nýtt þekkingu í þverfaglegu samhengi
  • geti greint frá fræðilegum viðfangsefnum, álitamálum og niðurstöðum í áheyrn sérfræðinga og almennings.

 

Skildu eftir svar