Nýlega hlaut NaNO styrk að upphæð 3.000.000 kr. úr Rannsóknarsjóði síldarútvegsins fyrir verkefnið NaNO námsefni – Náttúra, nýsköpun og tækni í sjávarútvegi. Meginmarkmið sjóðsins er að efla vöruþróun og markaðsöflun á síldarafurðum. Jafnframt að efla nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi. Styrkurinn verður nýttur til að semja, prófa og birta á vef námsefni um sjávarútveg sem veki áhuga nemenda með því að fást við nútímaleg viðfangsefni tengd samspili atvinnulífs, vísinda, tækni, náttúru og samfélags. Námsefninu er ætlað að nýtast ólíkum námsgreinum, stuðla að samþættingu þeirra og vinna þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Námsefnið er unnið í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Matís.
NaNO er verkefni á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og hófst það í september 2013. Markmið NaNO er að efla náttúrufræðimenntun í leik-, grunn- og framhaldsskólum og hafa verkefnisstjórar m.a. unnið að því markmiði með gerð námsefnis fyrir þessi skólastig auk þess að halda námskeið fyrir starfandi kennara og kennaranema, menntabúðir og málþing um náttúrufræðimenntun. Verkefnisstjóri er Ester Ýr Jónsdóttir.